Lýsing
Hér getur þú keypt dagsleyfi í Þingvallavatn. Þingvallavatn er eitt vinsælasta veiðivatn landsins þar sem hægt er að krækja í risaurriða og fallegar bleikjur í einstöku umhverfi innan þjóðgarðsins.
Leiðarlýsing:
Vatnið er í um 50 km. fjarlægð frá Reykjavík.
Upplýsingar um vatnið:
Þingvallavatn er í um 100 m. hæð yfir sjávarmáli og mælist um 84 km2 að flatarmáli. Mesta dýpi er um 114 m. Vatnið er eitt vinsælasta veiðivatn á landinu og á sér stóran hóp af fastagestum. Náttúrufegurð og saga gerir Þingvallavatn einstakt meðal vatna landsins. Mikið er að djúpum gjám í vatninu. Búið er að setja upp mjög góða aðstöðu fyrir veiðimenn og tjaldgesti við Vatnskot. Þar eru smáhýsi með snyrti- og eldunaraðstöðu og upplýsingum um vatnið og lífríki þess. Gott aðgengi er fyrir hreyfihamlaða við Vatnskot en þar má finna bryggjur.
Veiðisvæðið:
Handhöfum Veiðikortsins og dagleyfahöfum er heimilt að veiða fyrir landi þjóðgarðsins frá Arnarfelli til og með Leirutá. Öll veiði í Öxaráós er bönnuð. Hægt er að fá kort yfir veiðisvæðið um leið og veiðimenn skrá sig í þjónustumiðstöð. Helstu veiðistaðir eru í Lambhaga, Vatnskoti, Vörðuvík, Öfugsnáða, Lambhaga Nautatanga og Hallvík. Veiðibann er í Ólafsdrætti frá 1. júlí til 31. ágúst vegna hrygningar bleikjunnar.
Gisting:
Tjaldleyfi er hægt að kaupa í þjónustumiðstöðinni. Einungis er leyfilegt að tjalda á sérmerktum tjaldstæðum. Óheimilt er að nota tjaldvagna eða fellihýsi á tjaldstæðinu í Vatnskoti.
Veiði:
Í vatninu eru 4 tegundir af bleikju sem og víðfrægur urriðastofn. Algeng stærð á bleikjunni er frá hálfu pundi upp í 4 pund. Bleikjutegundirnar eru: Kuðungableikja, sílableikja, murta og gjámurta. Bleikjuafbrigðin hafa þróast í vatninu á síðustu 10.000 árum.
Daglegur veiðitími:
Veiðitími er frjáls og því heimilt að veiða allan sólarhringinn.
Tímabil:
Fluguveiðitímabil hefst 20. apríl og stendur til 31. maí. Þá má einungis veiða á flugu og öllum urriða skal sleppt. Almennt veiðitímabilið hefst 1. júní og því lýkur 15. september. Veiðibann er í Ólafsdrætti frá 1. júlí til 31. ágúst vegna hrygningar bleikjunnar.
Agn:
Eingöngu leyfð veiði á flugu, maðk og spón. Nefna má margar góðar flugur, en mest veiðist á litlar silungapúpur eins og t.d. Peacock, Watson Fancy, svartan Killer svo einhverjar séu nefndar. Oft reynist vel að nota langan taum og draga mjög hægt sérstaklega þar sem mikið dýpi er.
Besti veiðitíminn:
Jöfn veiði er í vatninu. Mjög góð bleikjuveiði er í maí, júní og júlí. Bestu líkurnar til að veiða urriða eru seint á kvöldin.
Reglur:
Aðeins er heimilt að veiða með flugu frá 20. apríl til 31. maí og skal þá öllum urriða sleppt aftur í vatnið. Frá 1. júní hefst almennt veiðitímabil í vatninu þar sem heimilt er að veiða með flugu, spón og maðki.
Veiðimenn og útivistarfólk eru vinsamlegast beðið að ganga vel um svæðið og skilja ekki eftir sig rusl. Óheimilt er að aka utan vega. Þingvallanefnd áskilur sér þann rétt að takmarka aðgang að vatninu gerist þess þörf. Veiðikortið gildir aðeins fyrir landi þjóðgarðsins að undanskildu landi Kárastaða. Vatnið er mjög kalt og eru menn beðnir um að fara að öllu með gát. Öll veiði úr bátum er bönnuð korthöfum Veiðikortsins. Börn yngri en 14 ára veiða frítt í fylgd með korthafa. Vegna rannsókna á urriða í Þingvallavatni eru veiðimenn beðnir að athuga hvort veiddir urriðar séu merktir. Merkin eru á baki urriðans neðan við bakuggann og geta verið einföld slöngumerki eða rafeindamerki. Framan af veiðitíma þegar urriðar veiðast helst í þjóðgarðinum þá er skylt að sleppa þeim að viðureign lokinni og reyndar hvatt til þess að gera það á öðrum veiðitímabilum einnig séu fiskarnir lífvænlegir. Fyrir merkta urriða gildir það sama, en áður en merktum urriða er sleppt þá er óskað eftir því við veiðimenn skrái hjá sér upplýsingar um númer merkisins ef þess er nokkur kostur. Þeim upplýsingum ásamt öðrum upplýsingum um fiskinn sem mögulega eru tiltækar s.s. um lengd hans er óskað eftir að sé skilað í þjónustumiðstöðina Þingvöllum eða til rannsóknarfyrirtækisins Laxfiska. Leiðbeiningar varðandi merkta urriða sem sleppt er má sjá með því að smella hér. Ef merktum fiski er landað (ekki sleppt), þá má fá upplýsingar um hvernig á að bera sig að með því að smella hér.
Veiðivörður / umsjónarmaður á staðnum:
Landverðir þjóðgarðsins á Þingvöllum sinna eftirliti og veita upplýsingar. Hægt er að hafa samband við landverði í þjónustumiðstöð þjóðgarðsins á Leirum en einnig er landvörður staðsettur við vatnið með aðstöðu í Vatnskoti og sinnir eftirliti þaðan.
Einnig viljum við benda á vandaðan bækling um veiðar í Þingvallavatni hefur gefið út á rafrænu formi og hægt er að nálgast hann með því að smella hér!
Umsagnir
Engar umsagnir komnar